Orkuskipti
Heimsækja Vef
Viðskiptavinur
Samtök Iðnaðarins
Okkar hlutverk
Forritun, hönnun, ráðgjöf, mörkun
Tæknistakkur
Next.js, TailwindCSS, Framer motion, Prismic
Um verkefnið
Vefurinn er hannaður til að fræða og upplýsa almenning um viðvarandi breytingar á orkulandslagi Íslands og til að draga fram mikilvægi þessara umskipta fyrir framtíð landsins. Á síðunni er að finna yfirgripsmikið yfirlit yfir núverandi stöðu orkumála í landinu, þar á meðal upplýsingar um orkunotkun og orkuframleiðslu, auk upplýsinga um mismunandi orkugjafa sem eru notaðir, þar á meðal endurnýjanlega orkugjafa eins og vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Á síðunni er einnig fjallað um sögu orku á Íslandi og þróun orkunotkunar í landinu rakin frá dögum kolanotkunar og mósins, gegnum fyrstu ár vatnsaflsvirkjunar, til núverandi tímabils endurnýjanlegrar orku. Þetta sögulega sjónarhorn veitir dýrmætt samhengi til að skilja núverandi orkuskipti og þær áskoranir og tækifæri sem eru framundan.
Vefurinn er auðveldur yfirferðar og nýtir myndræna framsetningu gagna til að miðla flóknum upplýsingum um orkuþróun og sögu orku á Íslandi á skilvirkan hátt.
Allt frá fyrsta fundi var ákveðið að mörkunin yrði að taka mið af alvarleika málsins en samt sem áður taka mið af markmiðum vefsins, að ná til sem flestra. Litapallettan tók mið af umræðuefninu sjálfu. Bláir og grænir tónar tengja litina við endurnýjanlega orku og framtíðina á meðan dekkri litir eru notaðir fyrir óendurnýjanlega orkugjafa. Notaður var stigull (e. gradient) til þess að varpa ljósi á orkuskiptin. Stigullinn var notaður í kaflaskiptum, gröfum og teikningum og myndaði notkun hans því sterka heildarmynd. Tónn verkefnisins átti að vera skýr. Markmiðið var að tala hreint út með afgerandi rödd.
Mörkun á myndrænni framsetningu gagna var sérstaklega skemmtilegur vinkill á verkefnið. Öll gröf eru sett fram á staðlaðan máta. Önnur framsetning gagna á að hvetja til rannsóknar með litum og formi. Notandinn getur betur áttað sig á stærð vandans með því að skoða framsetninguna og þannig er hægt að koma skilaboðunum áleiðis.
Útkoman
Við unnum út frá þeirri hugmyndafræði að mesti ávinningurinn felist í vef sem miðast við að gera upplifun notanda eins góða og mögulegt er. Vefurinn og mörkun hans er fallegur fyrir augað og settur upp þannig að notendur geti skilið flókið málefni á skýran og skilvirkan máta. Síðan einkennist af miklum tölulegum upplýsingum sem krefjandi var að koma í myndrænt form en þrátt fyrir þessar áskoranir er útkoman kvikur, notendavænn og gagnvirkur vefur sem við erum gríðarlega stolt af.